Eldri færslur
Af mbl.is
Trúverðugt Stúdentaráð
5.6.2009 | 14:55
Ég harma niðrandi umfjöllun um störf Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem ratað hefur í fjölmiðla á undanförnum vikum. Ráðið hefur setið undir mjög alvarlegum og óvægnum ásökunum um starfshætti og trúverðugleika þess frá sitjandi fulltrúum minnihlutans. Ég tel óeðlilegt að gagnrýni sem þessi skuli sífellt rata í fjölmiðla en sé aldrei borin beint undir þá aðila sem gagnrýnin beinist að.
Það er skiljanlega óbærilegt að missa meirihluta Stúdentaráðs með jafn afgerandi hætti og gerðist nú í febrúar. Sigur Vöku með yfir 200 atkvæðum var stórglæsilegur, verðskuldaður og sá stærsti í áraraðir. Það er trú meirihlutans að sigurinn hafi unnist með skýrri og ákveðinni stefnu Vöku en í umræddri kosningabaráttu var lögð mikil áhersla á baráttu gegn fyrirhuguðum gjaldskyldum bílastæðum. Núverandi meirihluti telur óeðlilegt að stúdentum hafi aldrei verið kynntar ákvarðanir háskólaráðs um fyrirhuguð gjaldskyld bílastæði og að Stúdentaráð hafi ekki beitt sér af krafti gegn ákvörðuninni á síðasta starfsári.
Vegna ásakana um rangfærslur og ósannindi af hálfu Stúdentaráðs fór ég einu sinni sem oftar á fund góðvinar míns Ingjalds Hannibalssonar til að fá staðreyndir bílastæðamálsins á hreint. Í samtali okkar kom fram að bílastæðin sem um ræðir eru staðsett annars vegar í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu og hins vegar fyrir utan bygginguna Gimli. Gefi gjaldskyldan góða raun mun Háskóli Íslands þó gera fleiri bílastæði gjaldskyld en það er hluti af framtíðarsýn skólans. Hvað varðar ágóða af gjaldskyldunni hefur Háskóli Íslands nú samið við Bílastæðasjóð Reykjavíkurborgar um að helmingur ágóðans falli í hlut Háskólans. Sá ágóði mun þó ekki renna til viðhalds bílastæða. Stofnkostnaður gjaldskyldunnar er töluverður og er því enn óljóst hvenær gjaldskyldan mun fyrst gefa af sér hagnað, það gæti þó tekið nokkur ár.
Mér finnst undarlegt hvernig oddviti minnihlutans heldur því fram að baráttan gegn gjaldskyldum bílastæðum sé eina verkefni Stúdentaráðs um þessar mundir. Ef minnihlutinn legði frá sér niðrandi greinaskrif um stund og tæki með auknum hætti þátt í hagsmunabaráttu stúdenta myndu fulltrúar hans vita að ráðið berst nú hörðum höndum að gjaldfrjálsum strætóferðum fyrir námsmenn, bættum lánskjörum fyrir stúdenta og bættu aðgengi fyrir sjónskerta við Háskólann svo fátt eitt sé nefnt. Á dögunum fékk Stúdentaráð einnig í gegn sumarannir við Háskóla Íslands og aukafjárveitingu til Lánasjóðsins sem nam 660 milljónum til að standa straum af fjölmörgum umsóknum um sumarlán. Sem sitjandi stjórnarmaður í LÍN veit ég að þessi aukafjárveiting var ekkert sjálfgefin og er gífurlegt afrek í hagsmunabaráttu stúdenta.
Það er ósk mín að Stúdentaráð geti í framtíðinni starfað með friðsamlegum hætti án niðrandi og persónulegra árása í garð starfandi einstaklinga innan ráðsins. Það skal áréttað vegna orða oddvita minnihlutans í Fréttablaðinu 4 júní sl. að Jóhann Már er ekki einungis faglega ráðinn starfsmaður skrifstofu heldur einnig kjörinn fulltrúi stúdenta í Stúdentaráði. Það er því ekkert óeðlilegt að hann láti skoðanir sínar og meirihlutans í ljós með greinaskrifum. Undirritaður skorar nú á Röskvuliða í minnihluta Stúdentaráðs að kynna sér framvegis starfsemi ráðsins áður en hún er gagnrýnd á óupplýstan hátt. Fulltrúum minnihlutans ber nú að bretta upp ermar og veita meirihlutanum liðstyrk við þau fjölmörgu brýnu hagsmunamál sem bíða ráðsins.
Athugasemdir
Ég ætla nú alls ekki að fara að rífast neitt við þig en það sem mér finnst athyglisverðast eru ítrekuð greinaskrif, umræður á facebook og á spjallborði Uglunnar sem koma frá almennum stúdentum, ekki fulltrúum Röskvu í Stúdentaráði. M.a. vegna hluta sem eru ekki réttir, t.d. að það sé verið að mismuna fötluðum stúdentum. Það er náttúrulega beinlínis ólöglegt að taka gjald fyrir bílastæði fatlaðra og engum, og allra síst HÍ sennilega, myndi detta það í hug.
Svo má líka benda á að gjaldskyldan var samþykkt í júní eða júlí 2007, þegar ég var formaður Stúdentaráðs og mikil umræða fór fram um þetta á sínum tíma. Ég, Sunna Kristín, Erna Blöndal og Þórir Hrafn hittumst t.d. sérstaklega til þess að undirbúa Háskólaráðsfundinn þar sem þetta var á dagskrá og á fundum SHÍ var þetta rætt mjög oft.
Sjálf er ég fylgjandi þessu en afstaða Stúdentaráðs á sínum tíma var að kjósa á móti þessu í Háskólaráði og ég stóð að sjálfsögðu á bak við það. Þannig ef þið viljið gagnrýna einhvern þá held ég að sú gagnrýni eigi að beinast að Stúdentaráði starfsárið 2007-2008, og þá sennilega einna helst mér. Þetta var líka alltaf tengt við Frítt í strætó verkefnið og hugsað sem hluti af því, þannig ef þið viljið berjast hart á móti þessu þá myndi ég hætta að berjast fyrir því að fá frítt í strætó og segja að þar með væri aðalröksemdin fyrir gjaldskyldunni fallin.
Dagný Ósk Aradóttir (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 16:21
Kannski bara aðeins að bæta við þessa langloku mína, aftur á góðu nótunum :)
Út af þessari tengingu við Frítt í strætó, þá var það að sjálfsögðu okkar mat að það skipti meira máli fyrir 10.000 (eða hvað það voru margir á þeim tíma) stúdenta að fá frítt í strætó heldur en að 100-200 bílastæði yrðu gjaldskyld. Þá var líka frítt í strætó fyrir alla skráða nemendur, erlenda, Garðbæinga, Akureyringa o.s.frv. þannig þetta þótti okkur augljóst mál.
Dagný Ósk Aradóttir (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 16:25
Sæll,
Ég ásamt BSM skrifaði grein í Fréttablaðið um gjaldskyldu bílastæðin því að þetta málefni er mitt hjartans mál. Ég tilheyri hvorki Vöku né Röskvu og hef aldrei áður skipt mér af stúdentapólitík.
Þú ritar hér að ofan
"Vegna ásakana um rangfærslur og ósannindi af hálfu Stúdentaráðs fór ég einu sinni sem oftar á fund góðvinar míns Ingjalds Hannibalssonar..."
Ég sé ekki hvernig það sem þú vísar í á þessum fundi sýnir að fulltrúar Stúdentaráðs hafi ekki verið með rangfærslur og ósannindi. Stúdentaráð sendi póst á póstlista nemenda 13. maí þar sem m.a. var skrifað:
"Þess er vert að geta að ágóðinn af gjaldskyldunni mun ekki renna til Háskóla Íslands - hann mun renna til bílastæðasjóðs sem mun standa að gjaldskyldunni að öllu leyti." [feitletrun SÖS]
Þetta er klár rangfærsla. Jóhann Már ítrekaði hana í grein sinni í Fréttablaðinu með villandi tilvitnun í Ingjald. Þar var hann uppvís að óheiðarlegum vinnubrögðum.
Annað dæmi er umræðan um aðgengi fatlaðra sem er algerlega á villigötum eins og kemur fram í grein okkar í Fréttablaðinu.
Þriðja dæmið er í tölvupósti frá Hildi Björnsdóttur á póstlista nemenda þann 7. maí þar sem eftirfarandi er ritað
"Fulltrúar Stúdentaráðs hafa fengið staðfest að þetta [gjaldskylda 5% bílastæða] sé einungis byrjunin – fyrr en varir verði öll bílastæði við Háskólann gjaldskyld."
Þetta er skrifað án þess að láta rétt samhengi fylgja. Ég (eins og þú) fór á fund Ingjalds þar sem hann útskýrði fyrir mér hvernig þetta tengdist langtímaáætlun um nýbyggingar á Háskólasvæðinu sem munu að einhverju leyti verða á núverandi bílastæðum. Þú hefur þá sennilega einnig heyrt tölur um hugsanlega þörf á 300 bílastæðum í bílastæðakjallara sem myndu kosta 3-4 milljónir stykkið, sem sagt um milljarð samtals. Ég held að það séu miklir hagsmunir í því m.a. af þessari ástæðu að reyna á næstu árum að minnka eftirspurn eftir bílastæðum.
Ég hef ýmsar fleiri athugasemdir vegna framsetningar Stúdentaráðs en læt vera að lista fleiri í bili. Þú mátt gjarnan benda mér á ósanngirni mína eða rangfærslur í ofangreindum athugasemdum.
Bestu kveðjur,
Sigurður Örn Stefánsson
Sigurður Örn Stefánsson, 6.6.2009 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.