Höfundur

Ingólfur Birgir Sigurgeirsson
Ingólfur Birgir Sigurgeirsson

Eyfellingur sem fluttist til höfuðborgarinnar til að freista gæfunnar og stundar nám við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Yfirlýsing frá meirihluta stjórnar SHÍ

Vegna ítrekaðra yfirlýsinga Röskvu undanfarna daga er varða ráðningu nýs framkvæmdastjóra SHÍ telja fulltrúar Vöku, sem mynda meirihluti stjórnar SHÍ, sig knúna til að koma eftirfarandi á framfæri.

Þann 15. febrúar síðastliðinn birtist fyrsta auglýsing um starf framkvæmdastjóra SHÍ en skilafrestur umsókna rann út þann 27. febrúar síðastliðinn. Í auglýsingunni komu fram þau hæfisskilyrði sem meta skyldi umsækjendur eftir en þau skilyrði voru samþykkt einróma af fulltrúum beggja fylkinga í stjórn SHÍ. Voru skilyrðin eftirfarandi:

• Góð þekking, innsýn og áhugi á SHÍ og málefnum stúdenta
• Þekking og reynsla af fjármálum og bókhaldi
• Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands
• Þekking á störfum Stúdentasjóðs
• Þekking og reynsla af skipulagningu stórviðburða
• Hæfileiki til að vinna með stúdentaráðsliðum, starfsmönnum skrifstofu SHÍ og öðrum hagsmunaðilum ráðsins
• Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt

Einungis bárust þrjár umsóknir um stöðuna en tveir umsækjendanna báru þó af hvað varðar ofangreind hæfisskilyrði. Allir umsækjendur voru kallaðir til viðtals hjá stjórn SHÍ, en tekið skal fram að formaður ráðsins, Hildur Björnsdóttir, kom hvergi nálægt ráðningarferlinu vegna persónulegra tengsla við tvo af umsækjendunum. Báðir þessir einstaklingar hafa verið nafngreindir í yfirlýsingum Röskvu, en það eru þau Jóhann Már Helgason og Júlía Þorvaldsdóttir.

Að viðtölunum afstöðnum, og að teknu tilliti til ofangreindra hæfisskilyrða, var ljóst að tveir umsækjendanna voru taldir vel hæfir í starfið, þ.e. ofangreindir umsækjendur Jóhann Már og Júlía. Stóð því valið á milli þeirra. Til að fá úr því skorið hvort þeirra yrði fyrir valinu sem framkvæmdastjóri SHÍ þurftu því fleiri atriði að koma til skoðunar.

Þrjú atriði urðu til þess að Jóhann Már varð fyrir valinu umfram Júlíu. Þau atriði voru eftirfarandi:

1. Jóhann Már var eini umsækjandinn sem uppfyllti allar hæfiskröfur sem óskað var eftir með fullnægjandi hætti. Jóhann hefur góða bókhaldsþekkingu en hann var áður ráðinn framkvæmdastjóri garðyrkjufyrirtækis sem þá hafði starfað í þrjú ár. Jóhann hefur einnig afburða reynslu af störfum innan Háskólans og SHÍ en hann hefur setið í Stúdentaráði, hagsmunanefnd, samgönguráði, stjórn Politica og fleiri nefndum á vegum ráðsins. Einnig sat Jóhann í stórhátíðarnefnd sem stóð að skipulagningu Októberfest og nýnemadaganna sem eru stærstu stórviðburðirnir á vegum Stúdentaráðs og eru stór þáttur í árlegum rekstri ráðsins. Á síðastliðnu starfsári sat Jóhann í stjórn stúdentasjóðs en á degi hverjum kemur fjöldi fyrirspurna til skrifstofu SHÍ um störf sjóðsins og reglur hans. Þess skal getið að engar menntunarkröfur voru gerðar til starfsins. Að ofangreindu metnu varð að taka tillit til þeirrar afburða reynslu sem Jóhann hafði af störfum innan SHÍ.

2. Framkvæmdastjóri SHÍ getur starfsins vegna þurft að sitja stjórnarfundi Félagsstofnunar Stúdenta sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsis og tillögurétt. Inn á þá fundi koma meðal annars ýmis trúnaðarmál er varða Félagsstofnun Stúdenta, en stofnunin er í ákveðinni samkeppni við Byggingarfélag Námsmanna. Júlía Þorvaldsdóttir situr í stjórn Byggingarfélags Námsmanna. Hér er um hagsmunaárekstur að ræða. Það er óheppilegt.

3. Jóhann Már gat hafið störf strax og var tilbúinn til að vinna mikla yfirvinnu launalaust. Aðspurð sagðist Júlía líklega geta losnað fljótlega úr starfi framkvæmdastjóra SKHÍ en hún þyrfti þó svigrúm til að sinna áfram verkefnum frá fyrra starfi. Hún kom með þá tillögu að annar hinna umsækjendanna myndi sinna starfi framkvæmastjóra SHÍ til 1. september en þá myndi hún taka við starfinu. Ráðið er til eins árs í stöðu framkvæmdastjóra SHÍ svo ráðningartímabilið yrði hálfnað er Júlía hæfi störf að fullu. Það er óheppilegt.

Að ofangreindu metnu var það niðurstaða meirihluta stjórnar SHÍ að Jóhann Már skyldi ráðinn í starf framkvæmdastjóra SHÍ. Sú staðreynd að Jóhann Már og formaður SHÍ eru í sambandi (en ekki sambúð) var tekin til greina en var ekki talin vinna gegn ráðningunni. Vaka, sem stýrir nú starfi Stúdentaráðs, hefur ætíð lagt áherslu á að velja fólk ekki eftir kyni, kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, mökum eða öðrum fjölskylduhögum – hæfasti aðilinn skal ætíð verða fyrir valinu. Samræmist ofangreind ráðning þeirri stefnu fullkomlega. Einnig er vert að geta þess að Júlía og formaður SHÍ eru bundnar nánum fjölskylduböndum en eiginmaður Júlíu er náfrændi formanns SHÍ og uppeldisbróðir móður hennar. Sama hvort þeirra yrði ráðið, Jóhann eða Júlía, hefði því alltaf verið möguleiki á gagnrýni af hálfu minnihlutans vegna persónutengsla við formann SHÍ.

Vissulega er það hlutverk minnihluta SHÍ að gagnrýna og veita meirihlutanum aðhald. Ómakleg og ómálefnanleg gagnrýni verður þó að teljast tímasóun. Það er hagur stúdenta við Háskóla Íslands að hagsmunum þeirra sé unnið brautargengi á erfiðum tímum í þjóðfélaginu. Meirihluti stjórnar SHÍ telur yfirlýsingum Röskvu nú að fullu svarað og mun ekki eyða meiri tíma í ofangreint mál. Mikilvægt er að fylkingar Stúdentaráðs snúi bökum saman á þessum erfiðum tímum og vinni í sameiningu að bættum hag stúdenta.

F.h. meirihluta Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Ingólfur Birgir Sigurgeirsson
María Finnsdóttir
Aðalbjörg Ósk Gunnarsdóttir
Jens Fjalar Skaptason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband