Eldri færslur
Af mbl.is
Yfirlýsing frá formanni Stúdentaráðs Háskóla Íslands
19.3.2009 | 11:05
Röskva hefur síðustu daga sent frá sér yfirlýsingar um nýlega ráðningu framkvæmdastjóra Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Yfirlýsingarnar eru því miður svo uppfullar af röngum staðhæfingum og ómerkilegum málflutningi, sem nú hefur ratað í fjölmiðla, að óhjákvæmilegt er orðið að svara honum og leiðrétta með þessari yfirlýsingu.
Um stöðu framkvæmdastjóra SHÍ sóttu þrír einstaklingar. Meðal þeirra voru þau Jóhann Már Helgason og Júlía Þorvaldsdóttir, auk þriðja aðila sem skal vera ónefndur en sá aðili hefur kosið að opinbera ekki umsókn sína. Þó hefur komið fram að þessi þriðji aðili sótti um starfið á síðasta ári og var þá af fulltrúum Vöku talinn hæfasti aðilinn.
Í yfirlýsingum sínum hefur Röskva haldið því fram að ráðningu Jóhanns Más megi einvörðungu rekja til þess að hann sé kærasti undirritaðrar og að ekki hafi verið tekið mið af hæfi hans. Á sama tíma hefur Röskva lýst þeirri skoðun sinni að Júlía hafi verið hæfasti umsækjandinn til starfans, væntanlega með hennar samþykki. Þykir undirritaðri það miður og ómaklegt að ekki hafi komið fram í yfirlýsingum Röskvu að Júlía og undirrituð eru tengdar nánum fjölskylduböndum, en eiginmaður Júlíu er náfrændi undirritaðrar og uppeldisbróðir móður hennar.
Vegna ofangreindra tengsla undirritaðrar við þau bæði, Jóhann Má og Júlíu, sagði undirrituð sig strax alfarið frá ráðningarferlinu og kom hvergi nálægt því. Þetta vissu þau bæði Jóhann og Júlía. Þetta vita einnig þeir fulltrúar Röskvu sem nú halda því fram að ófagleg sjónarmið hafi verið höfð uppi við ráðningu í stöðuna. Undirrituð vissi sem var að yrði annað hvort þeirra, Jóhann eða Júlía, fyrir valinu sem framkvæmdastjóri SHÍ, myndi koma fram gagnrýni vegna persónutengsla. Í stað undirritaðrar í valnefndina, þ.e. stjórn SHÍ, kom því inn varamaður frá Vöku.
Hvað hæfisskilyrðin varðar er ekkert náttúrulögmál sem segir að sé einn umsækjandi hæfastur eitt árið sé hann einnig hæfastur ári seinna þegar aðrir umsækjendur hafa gefið sig fram, svo vísað sé í eina af yfirlýsingum Röskvu. Að þessu sinni var það einfaldlega mat þess meirihluta núverandi stjórnar SHÍ sem að valinu stóð að Jóhann Már Helgason væri hæfasti umsækjandinn um starfið. Við matið var að sjálfsögðu tekið tillit til þeirra hæfiskrafna sem fram komu í auglýsingu um starfið, enda er það í fullu samræmi við þau rök Vöku sem höfð voru frammi gegn ráðningu fráfarandi framkvæmdastjóra SHÍ fyrir ári síðan.
Það er sama hvort þeirra hefði verið ráðið, Jóhann eða Júlía, Röskva hefði líklega málað upp spillingarmynd og reynt að grafa undan trúverðugleika Stúdentaráðs. Það er sorglegt að sjá hvernig kjörnir fulltrúar stúdenta verja tíma sínum og tækifærum í minnihluta ráðsins. Undirrituð, formaður SHÍ, skorar nú á Röskvu að láta af ómálefnalegri og ómaklegri umfjöllun sinni um þetta mál og snúa sér þess í stað að því, með núverandi meirihluta SHÍ, að vinna málefnum stúdenta við Háskóla Íslands brautargengi. Það er verðugur málstaður öllum til sóma.
Hildur Björnsdóttir
Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.